Fasteignir
-
Hverfisgata 21
Steinhús byggt árið 1912 fyrir Jón Magnússon, þá bæjarfógeta í Reykjavík og seinna fyrsta forsætisráðherra Íslands, og eiginkonu hans, Þóru Jónsdóttur.
Seinna voru þar m.a. höfuðstöðvar félaga bókagerðarmanna, skrifstofur bæjarfógeta og skrifstofa Áfengisverslunar ríkisins.
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hóf þar starfsemi sína og sömuleiðis var þar til húsa Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. Konungur og drottning Danmerkur og Íslands, Christian X og Alexandrine, gistu í húsinu í opinberri heimsókn sinni 1926 og bera konunglegu svítur hótelsins nöfn þeirra.
Í húsinu eru 10 hótelíbúðir
Stærð: 642 m2
-
Grensásvegur 16A
Byggingin að Grensásvegi 16a var byggð á árinu 1975 og var upphaflega hönnuð m.a. fyrir höfuðstöðvar ASÍ. Árið 1980 fékk Listasafn ASÍ fastan samastað á efstu hæð Grensásvegar 16a og var fyrsta myndlistarsýningin opnuð þar 1. maí sama ár.
Menningar og fræðslusamband ASÍ var einnig þar til húsa og voru fjölmörg námskeið haldin þar á þeirra vegum.
Um miðjan annan áratug þessarar aldar hófst vinna við umbreytingu á byggingarreitnum sem markast af Grensásvegi 16a og Síðumúla 37-39. Tveimur hæðum var bætt við Grensásveg 16a og lítilli 2ja hæða viðbyggingu ofan við hótelið, við Fellsmúla.
Í húsinu eru 77 hótelherbergi
Stærð: 2.869 m2
-
Hverfisgata 78
Bókfellshúsið á Hverfisgötu 78 var byggt á árunum 1945–1947 en bókbandsstofan Bókfell hafði verið stofnuð af nokkrum stórhuga mönnum árið 1943 þegar heimsstyrjöldin síðari var í algleymingi.
Margar prentsmiðjur hafa verið í húsinu, sú síðasta prentsmiðjan Formprent, sem var til húsa á fyrstu hæðinni frá 1970 til 2016. Um hríð var einnig lakkrísgerð, fatahreinsun, skrifstofur SÍBS o.fl. í húsinu.
Í húsinu eru 16 hótelíbúðir, þar af 10 í bakhúsi sem félagið byggði árið 2018.
Stærð: 1.424 m2
-
Laugavegur 35
Byggingin samanstendur af Laugavegi 33 og 35 auk Vatnsstígs 4. Vatnsstígur 4 var byggður árið 1916 og er húsið friðað enda eitt fárra íbúðarhúsa frá upphafsárum steinsteypualdar með steinsteyptu þaki. Húsið hefur því mikið umhverfisgildi og var gert upp í samræmi við upphaflegt útlit. Húsin sem snúa að Laugavegi verða varðveitt og gerð upp í samræmi við upphaflega gerð auk þess að vera hækkuð um eina hæð. Á jarðhæð við Laugaveg verða atvinnurými og við Vatnsstíg verður móttaka Reykjavík Residence Hotel.
Í húsinu eru 33 hótelíbúðir
Stærð um 2.148 m2
-
Veghúsastígur 7
Steinsteypt og að hluta til steinhlaðið hús byggt árið 1920, hannað af Erlendi Einarssyni arkitekt. Þar og í viðbyggingum sem seinna voru rifnar voru til húsa sápugerðin Máni, smjörlíkisgerðin Smári, bókaútgáfan Helgafell, prentsmiðjan Víkingsprent, bókaverslunin Unuhús og sýningarsalir fyrir myndlist. Þá var Félag áhugamanna um stjörnulíffræði til húsa í risinu um tæplega tveggja áratuga skeið.
Í húsinu eru 4 hótelíbúðir
Stærð: 442 m2
-
Vegahúsastígur 9 / Bergshús
Timburhús klætt með bárujárni, byggt árið 1910 og var seinna byggt við það í áföngum. Húsið byggði Bergur Einarsson, fyrsti Íslendingurinn sem lærði og starfaði við sútaraiðn. Þar bjó hann ásamt konu sinni, Önnu Árnadóttur Einarsson, og tveimur dætrum, og rak sútunarverkstæði og verslun.
Í húsinu eru 3 hótelíbúðir
Stærð: 369 m2
-
Hverfisgata 45
Steinhús byggt árið 1914. Hér var áður tómthúsbýlið Hlíð eða Arnljótskot. Fyrstu eigendur hússins voru hjónin Matthías Einarsson læknir og Ellen Ludvíka Matthíasdóttir Johannessen, foreldrar Louisu Matthíasdóttur listmálara.
Seinna var í húsinu skrifstofa aðalræðismanns, síðar Sendiráð Noregs, og þá var Söngskólinn í Reykjavík í húsinu í nærri aldarfjórðung.
Í húsinu eru 10 hótelíbúðir
Stærð: 438 m2
-
Lindargata 11
Ástráður Hannesson byggði fyrstu gerð hússins.
Árið 1906 seldi Ástráður Sigurði Jónssyni bóksala og mági hans, Vilhjálmi Árnasyni trésmiði, húsið, enda hafði hann þá byggt hús handan götunnar, Smiðjustíg 13 (Ástráðshús). Þeir félagar réðust strax í stækkun hússins og næstu áratugi bjó þar sama fjölskyldan.
Í húsinu eru 11 hótelíbúðir
Stærð: 511 m2
-
Veghúsastígur 9A
Á árunum 1911–1914 byggði Bergur Einarsson sútari þrjá skúra á Veghúsastíg 9a á bak við hús sitt, Bergshús. Þetta voru þurrkhús með porti og tveir steinsteyptir skúrar.
Í húsinu eru 9 hótelíbúðir
Stærð: 462 m2
-
Skeifan 11
Verslunarhúsnæði sem í dag hýsir glæsilega útivistarverslun Útilífs. Áður var í húsnæðinu m.a. verslun Krónunnar og Víðis. Húsnæðið var mikið endurbætt á árinu 2021.
Stærð: 866 m2
-
Hafnarbraut 9
Tvö atvinnurými, annars vegar líkamsræktarsalur sem er í leigu til GoMove og hins vegar skrifstofuhúsnæði sem leigt er til Sóltúns.
Stærð: 310 m2